Sprengisandslína – mat á umhverfisáhrifum

Tillaga að matsáætlun. Landsnet undirbýr lagningu 220 kV háspennulínu á milli Suður- og Norðurlands um Sprengisand. Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt 22. tl. í 1. viðauka laga nr. 106/2000 m.s.br. um mat á umhverfisáhrifum og er vinna við mat á umhverfisáhrifum hafin.

Tillaga að matsáætlun Sprengisandslínu, sem unnin er fyrir Landsnet af Steinsholti sf. og Verkfræðistofunni EFLU, var lögð inn til ákvörðunar Skipulagsstofnunar skv. 8. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum í lok október 2015. Tillagan er aðgengileg á heimasíðum Landsnets, Steinsholts og Skipulagsstofnunar og geta allir gert athugasemdir við hana og sent Skipulagsstofnun, annað hvort með bréfi eða í tölvupósti (skipulag@skipulag.is) fyrir 17. nóvember 2015.

Um verkefnið

Um er að ræða nýja 220 kV háspennulínu, frá tengistað við Langöldu á Landmannaafrétti að áætluðu tengivirki við Eyjadalsá vestan Bárðardals, og er heildarlengd hennar um 195 km. Tilgangur framkvæmdarinnar er að bæta raforkukerfi landsins, auka flutningsgetu þess, öryggi raforkuafhendingar og gæði raforku. Núverandi byggðalína, sem var reist í áföngum frá 1972 til 1984, er 927 km langt 132 kV hringtengt línukerfi sem nær frá Brennimel í Hvalfirði að Sigölduvirkjun. Um árabil hafa flutningstakmarkanir og óstöðugleiki verið mikið vandamál í rekstri línunnar og skerðingar á orkuafhendingu eru orðnar tíðari. Nú er svo komið að ástandið hamlar atvinnuuppbyggingu og afhendingaröryggi raforku á landinu. Í kerfisáætlun Landsnets er tenging frá Suðurlandi til Norðurlands sett fram sem hluti af nokkrum valkostum sem ætlað er að bæta fyrir ofangreinda annmarka í flutningskerfinu og þar er lína um Sprengisand mikilvægur hlekkur. Í samanburði við aðrar lausnir er tenging frá raforkuvinnslukjarnanum á Suðurlandi við norðurhluta landsins talin áhrifaríkasta styrking raforkukerfisins.

Nánari upplýsingar veitir:
Gísli Gíslason, verkefnisstjóri umhverfismats Sprengisandslínu; s. 487 7800, gisli@steinsholtsf.is

Tillaga að matsáætlun

Viðaukar 1-7

Share Button